
NEYÐARVÖRN
Neyðarvörn er formlegt og lagalegt hugtak yfir sjálfsvörn og er að mörgu leyti meira lýsandi fyrir það sem við kennum. Í 1. málsgrein 12. greinar almennra hegningarlaga nr. 19/1940 segir svo:
Það verk er refsilaust, sem menn vinna af neyðarvörn, að því leyti sem það hefur verið nauðsynlegt til þess að verjast eða afstýra ólögmætri árás, sem byrjuð er eða vofir yfir, enda hafi ekki verið beitt vörnum, sem séu augsýnilega hættulegri en árásin og tjón það, sem af henni mátti vænta, gaf ástæðu til.
Okkar markmið er að miðla bestu mögulegu þekkingu og þjálfun á neyðarvörn sem hægt er að nota til þess að afstýra ólögmætri árás. Þetta er auðvitað allt annað en einfalt, hvort sem árásin er byrjuð eða vofir yfir. Líklega nær enginn að útskýra flækjustigið á þessu jafn vel og Tony Blauer, stofnandi SPEAR sjálfsvarnarkerfisins í Bandaríkjunum:
Hugmyndafræði Tony Blauer hefur veitt okkur hjá Impact mikinn innblástur. Til að mynda höfum við hingað til aldrei kynnst neinu kerfi með jafn fræðilega nálgun á sjálfsvörn og SPEAR. Gott dæmi um þetta er líkan Tony Blauer sem kortleggur alla atburðarrásina: frá því að einstaklingur kemur auga á ógnina og þar til árás lýkur:

Í grunninn er auðvitað mikilvægast að vera meðvitaður í eigin umhverfi og vera vel áttaður á sínu svæði hverju sinni. Þess vegna er þjálfun í aðstæðuvitund (e. situational awareness) hluti af allri okkar neyðarvörn og öryggistækni. Þessi áhersla okkar samsvarar D1 hlutanum í líkani Tony Blauer hér að ofan.
Samskiptatækni er einnig mikilvægur hluti sjálfsvarnar og sá hluti sem reynir hvað mest á þegar flótti er ekki mögulegur og engin aðstoð býðst. Oft má afstýra líkamsárás, eða slá á frest uns hjálp berst, með ákveðinni líkamstjáningu og orðavali. Í námskeiðum Impact fyrir öryggisverði er djúpt kafað í þennan hluta (samsvarar hluta D2 í líkaninu hér fyrir ofan sem fer þó mun dýpra í fræðin).
Ef að allt fer svo til andskotans (hvorki var hægt að flýja ógnina né stilla til friðar) verður neyðarvörnin sjálf að skila árangri (samsvarar hluta D3 í líkaninu hér fyrir ofan).
Það sem margfaldar flækjustigið í öllu ferlinu er óttinn (sem Tony Blauer tekur umbúðarlaust inn í sína jöfnu). Í ógnandi aðstæðum þar sem atburðarrásin er hröð, er óraunhæft að beita gífurlega flókinni bardagatækni til þess að verjast / koma sér undan.
Á meðan Tony Blauer fjallar mikið um óttastjórnun og hræðsluviðbrögð í sínum fræðum, tekur Impact nálgun vöðvaminnis. Bæði byggir á svipaðri hugmyndafræði: að nota nær ósjálfráða viðbrögð líkamans til varna, en þau krefjast ekki meðvitraðrar hugsunar, enda fæstir í standi til þess að hugsa skýrt í miðri árás.
Impact leggur áherslu á að þjálfa ákveðnar hreyfingar síendurtekið til þess að líkaminn læri þær utanbókar. Þannig er hægt að auka líkur á einhvers konar varnarviðbragði (til dæmis að lyfta höndum þegar hliðarsjónin grípur snögga hreyfingu).
_JPG.jpg)
_JPG.jpg)
Ef þetta á að bera árangur VERÐUR sú tækni sem kennd er að virka. Þar flækjast málin enn frekar því öll höfum við ólíkan bakgrunn (það sem virkar fyrir einn, virkar ekki endilega fyrir annan).
Ofan á það getur ákveðin varnartækni virkað vel í fyrirfram ákveðnum bardaga sem er framkvæmdur eftir ákveðnum reglum. Framfylgi aðilar ekki tilsettum reglum stígur dómari inn og refsingar eru gefnar út. Þessi sama tækni virkar ekki í miðri árás úti á götu, enda engar reglur þar: ekkert við ólögmæta árás er sanngjarnt eða réttlætanlegt á nokkurn hátt.
Þar af leiðandi reynir Impact að taka fyrir fjölbreyttar aðstæður, fara yfir helstu hættur þeirra og hvernig bregðast má við (hvaða tækni er líkleg eða ólíkleg til árangurs). Mikilvægt er að fá tækifæri til þess að prófa varnartækni á móti ólíkum mótherjum til þess að átta sig á styrkleikum hennar og takmörkunum. Nálgun Impact á neyðarvörn er því fyrst og fremst gagnrýnin, sem er ástæða þess að þjálfarar okkar leita í og kynna sér mörg bardagakerfi.
Ofan á það leitum við í endurgjöf bæði þjálfara og iðkenda Impact sem sinna öryggisgæslu og hafa því miður þurft að grípa til neyðarvarna í sínum störfum.
Þrátt fyrir að miðla neyðarvörn og öryggistækni af miklum eldmóð, vonum við að enginn þurfi nokkurn tímann að nota það sem við kennum.




